Hellaferð í Vatnshelli í jólagjöf

Um Gjafabréfið

Líkt og síðustu ár bjóðum við okkar vinsælu gjafabréf til sölu fyrir jólin. Hverju gjafabréfi fylgir lítil og falleg gjafaaskja sem hægt er að koma gjafabréfinu fyrir í, einu og sér eða t.d. með smáhlut sem gefa á með bréfinu. Á öskjuna er hægt að merkja viðtakanda og gefanda, en öskjunni er einnig hægt að pakka inn í hefðbundinn gjafapappír og bæta við merkimiða eða jólakorti að eigin vali.

Hér á þessari síðu getur þú valið fyrir hve marga gjafabréfið á að gilda, fyllir inn upplýsingar um hvert við eigum að senda gjafabréfið og greiðir fyrir með korti eða millifærslu. Athugið að gjafaaskjan kemur ósamsett með gjafabréfinu svo ekki er æskilegt að láta okkur senda gjöfina beint til viðtakanda gjafarinnar. Hafðu samband ef þú vilt að við útbúum gjöfina, komum henni fyrir í öskju og sendum beint á viðtakanda. Það gæti hentað vel fyrir þá sem búa utan Íslands.
Athugið að þú velur fyrir hve marga eitt gjafabréf á að gilda. Viljir þú kaupa fleiri en eitt gjafabréf, þá þarf að velja fyrir hve marga hvert gjafabréf gildir og setja síðan hvert gjafabréf í körfu áður en gengið er frá kaupum.

ATH!
Ef þú sérð ekki fram á að gjafabréfið berist í tæka tíð má senda tölvupóst á jolagjafabref@summitguides.is þegar þú hefur lokið við pöntun og biðja þar um rafrænt afrit af gjafabréfinu.
Við munum þá senda rafrænt afrit af gjafabréfinu með tölvupósti sem prenta má heima fyrir. Munið að taka fram pöntunarnúmer með beiðninni.

Um Ferðina

Gjafabréfið er ávísun á ferð í Vatnshelli á Snæfellsnesi.

Vatnshellir er 8000 ára gamall hraunhellir sem varð til við eldgos í Purkhólum ofan við Malarrif á utanverðu Snæfellsnesi. Purkhólahraun er hefðbundið basískt helluhraun og er talið eitt hellaríkasta hraun á Íslandi. Vatnshellir er í um 500 metra fjarlægð frá Purkhólum og varð hellirinn til þegar yfirborðið á hraunrennslinu frá gígnum storknaði á meðan bráðið hraun hélt áfram að renna undir nýstorknuðu hrauninu. Það skildi eftir tómarúm þegar hraunrásin tæmdist, líklegast við endalok eldgossins. Inngangurinn varð svo til þegar þak hellisins hrundi að hluta til þegar hraunið byrjaði að kólna.

 

Við bjóðum 45 mínútna ferðir með leiðsögumanni niður í Vatnshelli. Vatnshellir er einn aðgengilegasti hraunhellir á Íslandi, en þrátt fyrir það þurfa þátttakendur að geta gengið sjálfir á ósléttu yfirborði. Þeir sem eiga erfitt með gang í myrkri eða á ósléttu yfirborði ættu ekki að fara í Vatnshelli. 

Það þarf að klæða sig vel fyrir ferðina þar sem hitastig í hellinum er rétt yfir frostmarki allt árið um kring. Við mælum með því að þátttakendur séu í gönguskóm en góðir strigaskór geta gengið. Háir hælar, inniskór og flatbotna skór eru bannaðir í hellinum af öryggisástæðum. Við mælum eindregið með því að hanskar eða vettlingar séu með í för, fyrir þægindi og ekki síst fyrir öryggi. Beitt hraun getur farið illa með óvarðar hendur ef einhver skyldi detta. Ekki þarf að skríða í Vatnshelli.

Aldurstakmark í hellaferðina er 5 ára.
Nánari upplýsingar um ferðina má finna hér.